Verkefni

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er rekið sameiginlega af sveitarfélögunum á Suðurlandi og hefur starfað síðan 1. janúar 1984.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands starfar skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Svæði Heilbrigðiseftirlit Suðurlands nær yfir fyrrum Suðurlandskjördæmið þ.e. frá Sandskeiði í vestri til Skeiðarársands í austri, Vestmannaeyja í suðri og inn á miðhálendið. Helstu verkefni Heilbrigðiseftirlits Suðurlands eru starfsleyfisveitingar og eftirlit með ýmiss konar starfsemi t.d. í matvælaiðnaði, veitingarekstri og ferðaþjónustu, matvælaverslunum og annarri þjónustustarfsemi, auk þess sem aukin áhersla er nú lögð á eftirlit varðandi mengandi starfsemi og umhverfismál. Eftirlit og rannsóknir á neysluvatni og neysluvörum er einnig í höndum heilbrigðiseftirlitsins í samvinnu við viðkomandi fyrirtæki, sveitarfélög og Umhverfisstofnun ríkisins.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er umsagnaraðili vegna skipulagsmála, t.d. vegna sumarhúsabyggðar í dreifbýli. Neysluvatnsmál, fráveitur og sorphirða eru t.d. atriði sem heilbrigðiseftirlitið tekur til athugunar við slíkar umsagnir.

Matvælarannsóknir ýmiskonar eru framkvæmdar reglulega auk reglubundinna rannsókna má nefna salmonellu rannsóknir í kjúklingum og svínakjöti, listeriu rannsóknir í kjötvinnsluvörum, gerlarannsóknir á mjólkurís o.fl.