Samþykktir HES

 

Samþykktir Heilbrigðiseftirlits Suðurlands

1.  Markmið og hlutverk

 1.1 Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, skammstafað HES, er byggðasamlag sveitarfélaga í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Heimili þess og varnarþing er  Austurvegi 65 Selfossi.

1.2 Um fyrirkomulag stjórnar, starfmanna, starfssvæðis og framkvæmd fer skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heilbrigðisnefnd  Suðurlands sem fer með yfirstjórn HES,  ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast framkvæmd á. Nefndin skal vinna að bættu heilbrigðiseftirliti á svæði sínu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum.

 1. Um aðalfund og aukaaðalfund

2.1 Aðalfund Heilbrigðiseftirlits Suðurlands skal halda fyrir lok októbermánaðar ár hvert á ársþingi SASS.

2.2 Aukaaðalfund skal boða ef þörf krefur að mati heilbrigðisnefndar eða ef þriðjungur  aðildarsveitarfélaga krefst þess skriflega.  Sömu reglur gilda um þá og reglulega aðalfundi.

2.3 Heilbrigðisnefnd Suðurlands semur dagskrá aðalfundar og skal hún send aðalfundarfulltrúum eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfundinn og skulu aðildarsveitarfélög hafa tilkynnt um fulltrúa á aðalfund fyrir þann tíma.  Með aðalfundarboði skal senda tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs, endurskoðaða ársreikninga, ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins, tillögur nefndarinnar og tillögur sem borist hafa  frá  aðildarsveitarfélögunum.

2.4 Aðalfundur mótar stefnu Heilbrigðiseftirlitsins, að öðru leyti en tilskilið er í lögum. Á aðalfundi er afgreidd skýrsla um liðið starfsár, endurskoðaðir reikningar og tillaga að fjárhagsáætlun  og gjaldskrá fyrir  næsta ár.

2.5 Tillögur og ályktanir sem hljóta eiga afgreiðslu á aðalfundi skal senda heilbrigðisnefndinni 3 vikum fyrir aðalfund.

 1. Um kosningar til aðalfundar

3.1 Á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands  eiga sæti:

 1. Einn fulltrúi fyrir sveitarfélag sem hefur 200 íbúa eða færri.
 2. Tveir fulltrúar fyrir sveitarfélag sem hefur 201 til 500 íbúa.
 3. Þrír fulltrúar fyrir sveitarfélag sem hefur 501 til 1000 íbúa
 4. Sveitarfélag með yfir 1000 íbúa skal auk þess fá einn fulltrúa fyrir hvert byrjað þúsund íbúa.
 5. Heilbrigðisnefndarmenn og framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga með málfrelsi og tillögurétti séu þeir ekki kjörnir fulltrúar
 6. Sveitarstjórnarmönnum, sem ekki eru kjörnir til setu á aðalfundi HES, og starfsmönnum Heilbrigðiseftirlitsins er heimilt að sitja aðalfundinn sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og rétt til setu í starfsnefndum þingsins er fjalla um málefni á sviði Heilbrigðiseftirlitsins. Miða skal við íbúafjölda sveitarfélags þann 1. desember næstliðins árs.  

3.2 Kjörgengir á aðalfund eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga, sveitarstjórnarmenn og varamenn þeirra. Sveitarstjórnarmaður missir kjörgengi sitt á næsta aðalfundi eftir að hann hættir setu í sveitarstjórn.

 1. Um kosningar á aðalfundi

 4.1 Á aðalfundi ræður einfaldur meiri hluti atkvæða.

4.2 Á aðalfundi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga  skulu  5 kosnir í Heilbrigðisnefnd til 4 ára, í samræmi við ákvæði 11. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

4.3 Aðalfundur kýs starfsnefndir fundarins og menn í starfsnefndir sem starfa að ákveðnum málefnum milli funda, samkvæmt sérstakri samþykkt aðalfundarins.

4.4 Fundargerðir og fundarsamþykktir aðalfundar skal færa í sérstaka gerðabók og jafnframt gerð grein fyrir öðru því sem gerist á aðalfundi.  Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði ef þess er kostur en heimilt er að fela fundarstjóra og fundarritara að ganga frá fundargerðinni.   Setja skal HES sérstök aðalfundarsköp sem aðalfundur þarf að samþykkja.

 1. Um stjórn og starfslið

5.1

Heilbrigðisnefnd Suðurlands er málsvari  HES á milli aðalfunda og fylgir fram samþykktum nefndarfunda og aðalfundar. Heilbrigðisnefndin vinnur að stefnumarkandi málum og gerir tillögur um ný mál er leggja skal fyrir aðalfund til ákvörðunar.  Heilbrigðisnefndin fer jafnframt með yfirstjórn á rekstri HES og ber ábyrgð á að rekstur sé innan þeirra fjárheimilda sem aðalfundur HES hefur samþykkt.

5.2

Heilbrigðisnefndarfundi skal halda  eftir þörfum en eigi sjaldnar en 6 sinnum á ári  og er nefndarfundur lögmætur sé  meiri hluti nefndarinnar mættur.

5.3

Heilbrigðisnefnd ræður framkvæmdastjóra til fimm ára, markar starfssvið hans og launakjör og gerir við hann skriflegan ráðningarsamning og skal ráðning hans miðuð við áramót.   Aðra starfsmenn ræður framkvæmdastjóri.  Heimild nefndarinnar þarf að liggja fyrir, ef um fjölgun stöðugilda er að ræða. Um starfskjör starfsmanna HES fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ráðningarsamnings.

5.4 Framkvæmdastjóri veitir Heilbrigðiseftirliti Suðurlands forstöðu og annast framkvæmd málefna eftir því sem heilbrigðisnefnd ákveður og hefur á hendi, fjármálastjórn og starfsmannastjórn. Framkvæmdastjóri á sæti á aðalfundi og heilbrigðisnefndarfundum.

5.5 Framkvæmdastjóri skal að jafnaði boða heilbrigðisnefndarfundi í samráði við formann nefndarinnar. Telji formaður stjórnar að óeðlilegur dráttur sé á fundarboðun, getur hann hlutast til um fundarboðunina. Framkvæmdastjóra er skylt að leggja fyrir heilbrigðisnefnd öll meiri háttar erindi og nýmæli.

5.6 Heilbrigðisnefnd mótar starfsmanna- og launastefnu fyrir HES. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að starfsmanna- og launastefnu sé fylgt.

 1. Um árgjöld

6.1 Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits á svæðinu. Sá kostnaður sem eftirlitsgjöld standa ekki undir greiðist af aðildarsveitarfélögunum í samræmi við íbúafjölda næstliðins árs.

7. Um úrsögn og slit

7.1 Um úrsögn og slit fer skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

 1. Um breytingar á samþykktum og gildistökuákvæði

8.1 Breyta má samþykktum þessum á aðalfundi ár hvert og skulu tillögur um breytingar á samþykktum fylgja fundarboði. Tillögur til breytinga á samþykktum skulu sendar heilbrigðisnefndinni þremur vikum fyrir aðalfund.

8.2 Breyting á samþykktum telst samþykkt, ef hún nýtur stuðnings 2/3 hluta kjörinna fulltrúa á lögmætum aðalfundi.

8.3 Samþykktir þessar  öðlast gildi við samþykki þeirra.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi HES 21. október 2014.