Eldgos í Grímsvötnum

 • Fyrstu niðurstöður mælinga

  Heilbrigðiseftirlitið hefur nú gert 34 mælingar á leiðni og sýrustigi á neysluvatni í Skaftárhreppi. Jafnframt hafa verið gerðar fjórar mælingar á flúor sem allar hafa verið innan viðmiðunarmarka.

  Til eru eldri mælingar hjá mjólkurframleiðendum, ferðaþjónustu og öðrum starfsleyfisskyldum aðilum sem hægt er að bera saman við mælingarnar nú.  Flest sýnin eru þó frá einkaaðilum þar sem HES er ekki kunnungt um ástand vatnsins fyrir eldgosið í Grímsvötnum. Því viljum við beina þeim  eindregnu tilmælum til fólks að senda til okkar sýni þó svo að gosið sé yfirstaðið.

  Niðurstöður leiðnimælinga gefa ekkert óeðlilegt til kynna og eru allar mælingar innan viðmiðunargildis neysluvatnsreglugerðar, og flest sýnin með mjög lág gildi sem telst almennt gott þegar um neysluvatn er að ræða.

  Sjá mátti nokkra tilhneigingu til lækkunar á sýrustigi þar sem hægt var að bera saman við eldri gögn. Auk þess var sýrustig vatnsins almennt lægra en búast má við af íslensku drykkjarvatni. Í nokkrum tilfellum fór sýrustigið niður fyrir gefin mörk en sýrustig skal vera á bilinu 6.5 – 9.5 skv. neysluvatnsreglugerð. Rétt er þó að taka fram að ekki er um neina heilsufarslega hættu á ferðum og til fróðleiks má nefna að sýrustig gosdrykkja er mjög lágt og miklu lægra en neysluvatns.

  Því vill Heilbrigiðseftirlitið leggja áherslu á að fólk komi sýnum til okkar í leiðni- og sýrustigsmælingar. Hægt er að taka vatnið í vel skolaða 1/2 lítra gosflösku og fylla alveg að brún. Merkja svo flöskuna stað, dagsetningu og símanúmeri og senda annað hvort með mjólkurbílnum eða koma  með sýnið á skrifstofu Skaftárhrepps.

  Jafnframt er fólk hvatt til að hafa samband við okkur varðandi niðurstöður mælinganna á sínu vatni.

  Continue reading →

 • Mælingar á neysluvatni

  Á fimmtudaginn 26. maí næstkomandi mun heilbrigðisfulltrúi vera í fjöldahjálparstöðinni á Kirkjubæjarklaustri og meta neysluvatn. Hægt er að koma með neysluvatn til rannsóknar í félagsheimilið á morgun og fyrripart fimmtudags.

  Mælt verður fyrir leiðni og sýrustigi í vatninu og út frá þeim mælingum metið hvort gera þurfi frekari aðkallandi mælingar.

  Íbúar Skaftárhrepps, sem ekki eru á samveitu Kirkjubæjarklausturs, eru sérstaklega hvattir til að notfæra sér þetta.

  Neysluvatnssýni er hægt að taka í vel skolaða 1/2 lítra gosflösku, merkja nafni, símanúmeri og sýnatökustað(heimilisfangi). Ef ekki er hægt að skila inn sýnum á fjöldahjálparstöðina er hægt að óska sérstaklega eftir að sýni verði tekin hjá viðkomandi. Hægt er að senda slíka beiðni til Heilbrigðiseftirlitsins á netfangið hs@sudurland.is eða í síma 4808220

  Allar frekari upplýsingar veitir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

  Continue reading →

 • Vatnsveitur og vatnsból

  Í Vestur Skaftafellssýslu eru 7 litlar vatnsveitur og 33 einakvatnsból samkvæmt skráningu Heilbrigiðiseftirlits Suðurlands. Eru það vatnsból sem eru, eða hafa verið, starfsleyfis- og eftirlitsskyld skv. neysluvatnsreglugerð en það eru vatnsveitur í þéttbýli og vatnsveitur og einkavatnsból sem þjóna ferðaþjónustu, mjólkurframleiðslubýlum eða annarri matvælaframleiðslu. Hins vegar hefur heilbrigðiseftlirlit ekki upplýsingar um fjölda eða ástand annarra vatnsbóla á svæðinu. Rétt er þó að taka fram að HES mun skoða neysluvatn hjá öllum sem óska eftir því. Næstu verk verða að fylgjast með gæðum neysluvatns á svæðinu og munu niðurstöður þess verða birtar hér á síðunni.

  Hér má sjá lista yfir starfsleyfisskyld vatnsból á svæðinu og niðurstöður mælinga fyrir gos.

  Neysluvatnsniðurst_Skaftarhr_mai_2011

  Continue reading →

 • Tilmæli til leiksskóla – leikum okkur innandyra

  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vill beina þeim tilmælum til leiksskóla, skóla og annarra umsjónarmanna barna, að láta þau ekki leika sér úti meðan ástandið er eins og það er. 

  Rétt er að taka fram að útivera er ekki talin almennt hættulegt en við leik utandyra þyrlast upp ryk sem er alltaf nálægt vitum lítilla barna.

  Á eftirfarandi myndbandi frá Umhverfisstofnun er hægt að gera sér grein fyrir magni svifryks í lofti eftir skyggni. Viðmiðunarmörk fyrir svifryk í andrúmslofti eru 50 míkrogrömm í rúmmetra á sólarhring.

  Continue reading →

 • Eldgos í Grímsvötnum – Leiðbeiningar frá Umhverfisstofnun
  Hvað á að gera og hvað á ekki að gera í öskufoki?

  Neðangreindar leiðbeiningar eru sóttar á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is
   

  Þegar skyggni er orðið fáir kílómetrar vegna öskufoks og klukkustundarmeðaltal svifryks fer yfir 400 µg/m3 er rétt að hafa eftirfarandi í huga:
   

  1. Ekki er nauðsynlegt fyrir fullfrískt fólk að nota grímu þegar farið er á milli staða, s.s. út í búð eða þess háttar
   

  2. Forðast langvarandi útiveru
   

  3. Íþróttaiðkun og útivist sem felur í sér áreynslu, s.s. trimm og erfiðar gönguferðir, getur valdið óþægindum í öndunarfærum
   

  4. Stjórnendur íþróttaviðburða ættu að íhuga frestun móta við þessar aðstæður, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.
   

  5. Þeir sem nauðsynlega þurfa að dvelja langdvölum úti við ættu að íhuga að nota grímur (sjá leiðbeiningar um grímur að neðan)
   

  6. Ekki er mælt með langvarandi útiveru barna né að ungbörn sofi úti í vagni
   

  Ákveðinn hópur fólks er viðkvæmari fyrir svifryki en aðrir, t.d. fólk með hjarta- og lungnasjúkdóma. Viðkvæmustu einstaklingar þess hóps geta fundið fyrir auknum einkennum frá sínum sjúkdómum við mun lægri styrki, jafnvel niður fyrir 100 µg/m3.

  Askan sem fýkur frá svæðinu kringum Eyjafjallajökul samanstendur að mestu af óvirkum efnum og er því tiltölulega hrein aska með lítið að heilsuspillandi efnum. Askan er þannig minna skaðleg en venjuleg borgar- eða iðnaðarmengun ef hún væri í sama styrk. Askan þó oft í  mun meiri styrk en venjuleg umferðarmengun. Aftur á móti má færa rök fyrir því að askan sé verri en venjulegt sandfok vegna þess hve fínkorna hún er og korn hennar hvöss. Óvissa er um hve lengi þetta ástand varir þannig að það er skynsamlegt að gera ráðstafanir til að lágmarka innöndun öskunnar.

  Heildarmagn þeirrar ösku sem einstaklingur andar að sér yfir daginn er háð styrk öskunnar í andrúmlofti og athöfnum viðkomandi. Þannig eykur útvera og aukin líkamleg áreynsla í miklu öskufoki innöndun öskunnar enn frekar. Þegar styrkur klukkutímameðaltals svifryks er farin að mælast í hundruðum míkrógramma á rúmmetra (µg/m3) er ekki hægt að mæla með langvarandi útiveru. Erfitt er að fastsetja ákveðna tölu en þó má segja að við 400 µg/m3 ætti fólk að forðast langvarandi óþarfa útiveru. Ekki eru alls staðar svifryksmælar en þegar skyggni er orðið fáir kílómetrar vegna öskufoks er mikið svifryk á ferðinni.

  Aðgerðir eins og lýst er hér að ofan gagnast vel til að takamarka innöndun öskunnar í miklu öskufoki til að lágmarka áhrif á öndunarfærin. Viðbúið er að öskufok geti komið reglulega í sumar og því gott  að þekkja til ráða sem lágmarka áhrif á öndunarfærin.
   

  Um rykgrímur

  Almennt er mælt með P2 síum til að verjast gosösku. Ekki er talin þörf á notkun P3 grímna. Mjög einstaklingsbundið er hversu vel fólki gengur að nota rykgrímur og sumum þykja P2 grímurnar óþægilegar. Minnsta mótstaðan  er í P1 síum og fyrir fólk sem finnst óþægilegt að anda gegnum P2 síu er P1 sían vissulega kostur því hún heldur þó frá um 80% af rykinu.
   

  Rykgrímum er skipt upp í þrjá flokka eftir þéttleika þeirra:
   

  • P1 grímur stoppa um 80% af ögnum sem eru minni en 0,5 míkrómetrar
  • P2 grímur stoppa um 94% af ögnum sem eru minni en 0,5 míkrómetrar
  • P3 grímur stoppa um 99,95% af ögnum sem eru minni en 0,5 míkrómetrar
  Upplýsingar um einkenni (frá Sóttvarnarlækni)
  Öndunarfæri
  • Nefrennsli og erting í nefi
  • Særindi í hálsi og hósti
  • Einstaklingar sem þjáist af hjarta- og/eða lungnasjúkdómum geta fundið fyrir þyngslum fyrir brjósti og/eða berkjubólgur sem varar í marga daga og lýsa sér í hósta, uppgangi og öndunarerfiðleikum
  Augu
  • Gosaska getur ert augu einkum ef augnlinsur eru notaðar.
  • Tilfinning um aðskotahlut
  • Augnsærindi, kláði, blóðhlaupin augu
  • Útferð og tárarennsli
  • Skrámur á sjónhimnu
  • Bráð augnbólga, ljósfælni
  Húð
  • Erting, sviði, roði og kláði í húð

  Continue reading →