Fyrstu niðurstöður mælinga

Heilbrigðiseftirlitið hefur nú gert 34 mælingar á leiðni og sýrustigi á neysluvatni í Skaftárhreppi. Jafnframt hafa verið gerðar fjórar mælingar á flúor sem allar hafa verið innan viðmiðunarmarka.

Til eru eldri mælingar hjá mjólkurframleiðendum, ferðaþjónustu og öðrum starfsleyfisskyldum aðilum sem hægt er að bera saman við mælingarnar nú.  Flest sýnin eru þó frá einkaaðilum þar sem HES er ekki kunnungt um ástand vatnsins fyrir eldgosið í Grímsvötnum. Því viljum við beina þeim  eindregnu tilmælum til fólks að senda til okkar sýni þó svo að gosið sé yfirstaðið.

Niðurstöður leiðnimælinga gefa ekkert óeðlilegt til kynna og eru allar mælingar innan viðmiðunargildis neysluvatnsreglugerðar, og flest sýnin með mjög lág gildi sem telst almennt gott þegar um neysluvatn er að ræða.

Sjá mátti nokkra tilhneigingu til lækkunar á sýrustigi þar sem hægt var að bera saman við eldri gögn. Auk þess var sýrustig vatnsins almennt lægra en búast má við af íslensku drykkjarvatni. Í nokkrum tilfellum fór sýrustigið niður fyrir gefin mörk en sýrustig skal vera á bilinu 6.5 – 9.5 skv. neysluvatnsreglugerð. Rétt er þó að taka fram að ekki er um neina heilsufarslega hættu á ferðum og til fróðleiks má nefna að sýrustig gosdrykkja er mjög lágt og miklu lægra en neysluvatns.

Því vill Heilbrigiðseftirlitið leggja áherslu á að fólk komi sýnum til okkar í leiðni- og sýrustigsmælingar. Hægt er að taka vatnið í vel skolaða 1/2 lítra gosflösku og fylla alveg að brún. Merkja svo flöskuna stað, dagsetningu og símanúmeri og senda annað hvort með mjólkurbílnum eða koma  með sýnið á skrifstofu Skaftárhrepps.

Jafnframt er fólk hvatt til að hafa samband við okkur varðandi niðurstöður mælinganna á sínu vatni.