Aðalfundur 2007

Fundargerð
 

2. aðalfundar

Heilbrigðiseftirlits Suðurlands

haldinn 1. og 2. nóvember 2007

á Kirkjubæjarklaustri

Setning.

Jón Vilhjálmsson, formaður, setti fundinn og bauð fulltrúa velkomna.

Hann tilnefndi þau Jónu S. Sigurbjartsdóttur og Bjarna Daníelsson sem fundarstjóra og Ástu Stefánsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt samhljóða.

Í lok máls síns fól formaður fundarstjórum stjórn fundarins.

Lögð var fram svohljóðandi tillaga stjórnar SASS að kjörbréfa- og kjörnefnd:

Gunnar Þorgeirsson, formaður

Margrét K. Erlingsdóttir

Þorgils Torfi Jónsson

Aldís Hafsteinsdóttir

Páley Borgþórsdóttir

Gísli Kjartansson

Birna Borg Sigurgeirsdóttir

Var tillagan samþykkt samhljóða og tók nefndin þegar til starfa.

Skýrsla stjórnar

Jón Vilhjálmsson, formaður, flutti ávarp þar sem hann fór yfir starf nefndarinnar á árinu. Mörg mál hafa verið á borði nefndarinnar og sum hver umfangsmikil. Ræddi hann um beitingu þvingunarúrræða og réttarstöðu þeirra sem þvingunarúrræði beinast gegn. Nýlega gekk úrskurður um skipan fulltrúa atvinnulífsins í nefndinni þar sem til skoðunar var lögheimilisfesti fulltrúans. Kom fram í máli formanns að almenningur er mjög meðvitaður um kæruleiðir og kærurétt og að nefndin leitast við að fara að stjórnsýslulögum til að forðast að fá á sig kærur og e.t.v. skaðabótakröfur. Ræddi hann einnig um aðkomu nefndarinnar að skipulagsmálum og að eðlilegt væri að nefndin kæmi ekki aðeins að deiliskipulagi frístundabyggðar, heldur einnig að deiliskipulagsáætlunum í þéttbýli. Einnig gat hann þess að í þurrkum í sumar hafi víða borið á vatnsskorti og huga þurfi að þeim málum til framtíðar. Málaflokkar sem varða matvælaeftirlit flytjast milli ráðuneyta um áramótin. Jón þakkaði starfsfólki Heibrigðiseftirlits og nefndarmönnum öllum gott starf og árangur.

Skýrsla framkvæmdastjóra

Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri, kynnti ársskýrslu Heilbrigðiseftirlitsins og starfsskýrslu fyrir árið 2007. Núverandi heilbrigðisnefnd var kosin á s.l. ári til 4 ára. Fimm starfsmenn starfa við HES. Elsa fór yfir skipulag heilbrigðiseftirlitsins og hlutverk þess. Væntanleg eru ný lög um fráveitur og vatnsveitur. Starfsemi eftirlitsins skiptist að meginstofni í fjögur svið, hollustuháttaeftirlit, matvælaeftirlit, umhverfiseftirlit og mengunarvarnaeftirlit. Tók hún einnig sérstaklega fram að eftirlitsstarfið er forvarnarstarf. Elsa þakkaði nefndarmönnum, starfsfólki og samstarfsmönnum gott samstaf.

Endurskoðaðir reikningar

Elsa Ingjaldsdóttir, kynnti ársreikning Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir árið 2006.

Tillaga að fjárhagsáætlun

Elsa Ingjaldsdóttir, kynnti fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Suðurlands fyrir árið 2008. Ekki er gert ráð fyrir gjaldskrárhækkun fyrir næsta ár. Tekjur vegna eftirlitsgjalda munu þó hækka vegna fjölgunar eftirlitsskyldra aðila. Lagði Elsa til að ársskýrslan og fjárhagsáætlunin yrðu samþykkt óbreytt.

Niðurstaða kjörnefndar um lögmæti fundarins

Gunnar Þorgeirsson, formaður kjörbréfa- og kjörnefndar kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir kjörbréfum, en alls voru mættir 48 aðalfulltrúar og tveir varamenn. Gild kjörbréf eru 54. Fundurinn úrskurðast því lögmætur.

Ársskýrsla, endurskoðaðir reikningar og fjárhagsáætlun voru borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.

Neysluvatns og skipulagsmál á Suðurlandi

Er hreint vatn í krananum þínum?

Erindi Sigrúnar Guðmundsdóttur, heilbrigðisfulltrúa, um ástand neysluvatnsmála á Suðurlandi

Sigrún Guðmundsdóttir hélt erindi þar sem fram kom að vatnsskortur hafi verið á Suðurlandi s.l. sumar. Ræddi hún um gæði neysluvatns. Aðvörun var gefin út í haust um að vatn gæti verið heilsuspillandi á svæði nokkuð stórrar vatnsveitu í Árnessýslu. Á nokkrum stöðum þurfti að grípa til sérstakra aðgerða til að anna vatnsþörf og í sumum tilvikum var þá notast við vatn sem var að takmörkuðum gæðum, m.a. vegna mýrarrauða o.fl. Nýjasta vatnsveitan er í Hrunamannahreppi, og er vatnið sótt upp fyrir byggðina. Víða á Suðurlandi eru stór svæði háð vatnsvernd og nýting því takmörkuð. Sveitarfélögum er skylt að reka vatnsveitur í þéttbýli en heimilt að reka veitur í dreifbýli. Fram kom hjá Sigrúnu að öryggi íbúa er ógnað með lélegu vatni. Rakti hún ýmsa sýkingarmöguleika sem geta borist með vatni. Ræddi hún um nokkur dæmi um hópsýkingar af völdum mengaðs vatns á Íslandi. Þá fór hún yfir viðmið varðandi staðarval vatnsbóla og frágang linda. Á Suðurlandi eru 34 vatnsveitur með starfsleyfi. Hvatti Sigrún sveitarfélög á Suðurlandi til að fara í átaksverkefni varðandi vatnsveitur, líkt og gert var með rotþrær í dreifbýli fyrir nokkrum árum.

Hvað er gott skipulag?

Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu fjallar um stöðu skipulagsmála og kröfur til þeirra

Pétur Ingi Haraldsson hélt erindi varðandi neysluvatn og fráveitur í skipulagi frístundabyggðar. Sameiginleg skipulagsnefnd fimm sveitarfélaga í Árnessýslu hefur leitt til aukins samræmis á svæðinu. Á svæðinu eru um 5000 sumarhús og hafa 1000 lóðir að auki verið skipulagðar. Ákvæði byggingareglugerðar hafa breyst hvað varðar hámarksstærð frístundahúsa og eru nú dæmi um allt að 500 fermetra hús og eru þau nú heilsárshús. Ræddi hann um staðsetningu rotþróa og vatnsbóla við sumarhús. Auknar kröfur eru frá heilbrigðiseftirliti s.s. um að neysluvatnsöflun sé tryggð áður en deiliskipulag tekur gildi og að miðað skuli við sameiginleg fráveitukerfi fyrir a.m.k. nokkur hús. Þróunin er sú að veitur verða stærri og sveitarfélög taka yfir minni einkaveitur. Líta þarf á neysluvatn og fráveitu sem hluta af forsendum skipulagsvinnunnar.

Almennar umræður

Kosning skoðunarmanna ársreikninga og varamanna þeirra

Gunnar Þorgeirsson formaður kjörbréfanefndar kvaddi sér hljóðs og kynnti tillögu nefndarinnar:

Aðalmenn:

Elín Einarsdóttir Mýrdalshreppi

Margrét Sigurðardóttir Flóahreppi

Varamenn:

Herdís Þórðardóttir Hveragerði

Sigurður Jónsson Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Var það samþykkt samhljóða.

Jón Ó. Vilhjálmsson, kvaddi sér hljóðs og ræddi um vatnsvernd. Þakkaði hann fyrri góðan fund og sagði honum slitið.

Jóna S. Sigurbjartsdóttir, fundarstjóri

Bjarni Daníelsson, fundarstjóri

Ásta Stefánsdóttir, ritari